BlackSimpleBeautifulNatureEmailHeader

Vinátta

Góðir vinir vita að þér líður ekki alltaf vel, þeir skilja og skynja hvenær þú þarft að vera einn og hvenær þú þarft þeirra stuðning.

Það sama á við um þig, þú áttar þig á því að það þarf tvo til að geta átt gott vinasamband. Þið styðjið hvorn annan og veitið hvor öðrum gleði og hamingju. Þið leyfið hvor öðrum að gera mistök og hjálpið svo til þegar þau eru búin.

Vinátta snýst um að vera til staðar, veita gleði, hamingju, bros, öxl til þess að gráta á. En allt þetta skiptir engu máli ef vináttan er ekki raunveruleg.

Að vera góður vinur felur í sér að styðja, standa með, hrósa og hjálpa. Sönn vinátta felst í viljanum að gefa af tíma sínum. Að gefa af sjálfum sér þegar við í raun höfum lítið aflögu.

Fórnfús kærleikur gagnvart öðrum kostar bæði tíma og þolinmæði en er vel þess virði í ljósi alls þess góða sem við fáum í staðinn, kærleikur frá öðrum, traust, virðingu og ævarandi vinátta.

Ómetanlegir hlutir sem skipta meira máli en öll verðmæti heimsins. Og það fer ekkert á milli mála hverjir eru þínir raunverulegu vinir. Haltu í þá!!! Þeir munu gera líf þitt ríkara.

Hugvekja flutt af Guðmundi Inga, OE í Fjölni – 26.10.2023