BlackSimpleBeautifulNatureEmailHeader

Ný stúka á Íslandi

Húsið á Sléttunni

Haustið 2012 óskuðu 15 bræður eftir því við RSST að fá að stofna stúku nr. 4 á Íslandi og skildi hún vera staðsett á Suðurnesjum. Þann 20. febrúar 2013 barst síðan svar frá RSST, þar sem stofnun stúku nr. 58 var samþykkt og skyldi stofndagur vera 07. september 2013. Þegar þessar gleðifréttir bárust bræðrum hófst vinna við undirbúning. Bræður tóku sig saman í leit að hentugu húsnæði sem endaði með því að keypt var 184 fm skrifstofuhúsnæði, sem áður var í eigu Bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Einnig var hafin vinna við að fjölga bræðrum og urðu 18 bræður stofnfélagar. Vinna við standsetningu húsins var þegar hafin. Unnið var hörðum höndum með það að markmiði að húsið verði opnað á stofndegi nýju stúkunnar, þann 7. september 2013.

Umtalsverða skipulagsbreytinga var þörf á innviðum hússins, að utanverðu var húsið ágætlega útlítandi og ekki þörf á breytingum þar. En að innan þurfti að sinna að ýmsum hlutum, taka niður kerfisloft, skipta út rafmagni, rífa niður veggi, taka teppi af og yfirfara hitakerfi. Eftir allt niðurrif, hófst uppbygging af fullum krafti og nutum við góðs af bræðrum sem eru lærðir iðnaðarmenn og öðrum handlagnum bræðrum og var þetta gert með gleði í hjarta og mikilli ánægju.

 

Dagur 1 Niðurrif

Dagur 2. Uppbygging

Sá mikli kraftur og gleði þessara bræðra við uppbyggingu stúkunnar verður vonandi til að styrkja allt starf Reglunnar okkar og verði öðrum bræðrum hvatning.

Mín kynni byrjuðu þannig að ég fékk nýja nágranna, okkur hjónunum var boðið í kaffi til þeirra hjóna Guðrúnar Laukka og Tommi Laukka (bróðir). Við sátum að spjalli, þá spurði Tommi mig hvort ég hafi heyrt um Drúídaregluna. Það hafði ég aldrei heyrt á minnst, eina samhengi mitt við Drúída var úr myndum um galdrakarlinn Merlin. Hann sagði mér svona upp og ofan af þessari reglu og sló ég til og fyllti út umsókn heima hjá Tommi. Síðan leið tími og ég fæ upphringingu frá Heimi Hávarðssyni og í kjölfar af því fæ ég heimsókn frá Heimi ásamt Ingibergi Hafsteinssyni og kynna þeir stúkuna fyrir okkur hjónum. Mér leist nokkuð vel á þetta og ákvað að láta reyna á þetta og hugsaði alltaf ég get þá bara hætt við, ef mér líst ekki á þetta.

Þann 26. febrúar 2013 var ég tekinn inní Drúídastúkuna Fjölni. Reynsla mín af þessu er nú ekki orðin mikil, en mér líst vel á þennan félagsskap.

Það er gaman að geta verið með í svona frá byrjun. Þeir bræður sem ég hef kynnst í tengslum við undirbúninginn að nýrri stúku hér sýna manni hversu öflugum drifkrafti, samheldni og bræðralagi þeir búa yfir. Það eru því spennandi tímar framundan, ekki eingöngu varðandi stofnun súkunar, heldur líka hvernig ég á eftir að kynnast störfum bræðranna og efla sjálfan mig og sjá okkur nýju stúku eflast með tímanum.

Mín sýn á framtíð með stúkunni, það er svolítið erfitt að segja til um framtíðarsýn, þar sem að ég er svo nýr í þessu og á eftir að fá alveg fulla sýn á bræðralagið. Ég veit út á hvað þetta gengur. En svo lærir sem lifir. En ég vona að ég eigi eftir að eiga góðar samverustundir með stúkunni og bræðrum þeim er henni tilheyra, ásamt öllum þeim sem eiga eftir að verða á vegi mínum í þessum félagsskap. Ég lít bara björtum augum á framtíðina og spennandi tíma framundan við að hitta nýja bræður.

Með bróðurkveðju í E.F.S.,
Hörður Baldursson Olsen.

error: Efni á þessari heimasíðu er höfundarréttarvarið. Vefstjóri.